Skip to Main Content

APA staðall

Heimildaskrá

Heimildaskrá

Áður en byrjað er að setja heimild inn í heimildaskrá þarf að ákveða tegund heimildarinnar. Heimildir geta verið bækur, tímaritsgreinar, skýrslur, vefsíður, lög og reglugerðir, myndbönd, hljóðupptökur og margt fleira. Það skiptir máli að heimild sé rétt skilgreind af því að það eru mismunandi upplýsingar sem þurfa að koma fram fyrir mismunandi tegundir. Til dæmis þarf að taka fram útgefanda fyrir bækur en ekki fyrir tímaritsgreinar. 

Heimildaskrá skal byrja á nýrri blaðsíðu aftast í verkefni og hafa titilinn Heimildir sem fyrirsögn.

Sjá dæmi um uppsetningu heimildaskrár (bls. 66-67)

Heimildaskráin á að vera með samsvarandi línubili og aðrir hlutar verkefnisins, þó staðallinn kveði á um að línubil í verkefnum skuli vera tvöfalt.

Fyrsta lína í hverri færslu í heimildaskránni skal vera „hangandi“, þ.e. fyrsta línan í færslunni er vinstri jöfnuð, en næstu línur inndregnar (í Word-forritinu; Paragraph – Indents and spacing – Special – Hanging).

Röðun heimilda í heimildaskrá

  • Færslur í heimildaskrá skulu vera stafrófsraðaðar eftir nöfnum höfunda (fornöfn höfunda heimilda á íslensku og eftirnöfnum höfunda heimilda á öðrum tungumálum), eða nafni stofnunar eða fyrirtækis sem skráð er fyrir heimildinni.
  • ATH. að röð höfunda að einstöku verki er aldrei breytt, enda gefur röðin oft til kynna ólíkt framlag höfunda til vinnu við verkið, bókina, tímaritsgreinina, skýrsluna, rannsóknina ... .
  • Ef höfundur er ókunnur þá raðast heimildin eftir titli.
  • Ef tveir höfundar heita sama fornafni þá raðast þeir eftir föðurnafni (heimildir ritaðar á íslensku), en ef tveir höfundar heita sama eftirnafni raðast þeir eftir fyrsta bókstaf í fornafni (heimildir ritaðar á öðru tungumáli).
  • Ef höfundar eru alnafnar raðast þeir eftir ártölum, elsta heimildin fyrst (þ.e. heimild útgefin árið 1988 raðast á undan heimild sem gefin var út árið 2001).
  • Ef notaðar eru tvær eða fleiri heimildir eftir sama höfund sem útgefnar eru sama ár, þá eru heimildir aðgreindar með a, b, c á eftir ártali:
Wilson, A. (2008a). A survey into the effects of ....
Wilson, A. (2008b). The effects of ...

 

Ef notaðar eru tvær eða fleiri heimildir eftir sama höfund en báðar án dagsetningar þá eru heimildir aðgreindar með -a, -b, -c á eftir e.d. (engin dagsetning):

Spencer, C. B. (e.d.-a). Into the depths of ...
Spencer, C. B. (e.d.-b). Looking through the ...

 

Það er titill heimildar sem ræður því hvaða heimild fær a, b eða c á eftir ártali (eða e.d.). Tvær heimildir sem hafa sama höfund og útgáfuár og titill annarar heimildarinnar byrjar á Advanced ... þá fær sú heimild  e.d.-a og heimildin sem hefur titil sem byrjar á Fundamentals of ...  fær e.d.-b.

Ef notaðar eru margar heimildir eftir sama höfund, þar sem koma fyrir heimildir sem eru án árs (e.d.), heimildir með ártali og heimildir sem eru í prentun, þá gæti röðunin verið svona:

Wilson, A. (e.d.). A survey into the effects of ....
Wilson, A. (2008). The effects of ...
Wilson, A. (2019). Fundamental rights ... 
Wilson, A. (í prentun). Challenging the ...

 

Ef notaðar eru tvær eða fleiri heimildir þar sem fyrsti höfundur er sá sami en meðhöfundar eru mismunandi þá raðast heimildirnar eftir nöfnum næsta höfundar í röðinni og eftir ártali sé röð höfunda sú sama:

Spencer, C. B. (e.d.-a). Into the depths of ...
Spencer, C. B. (e.d.-b). Questioning the ...
Spencer, C. B., Borham, A. L., Thaureaux, M. og Hare, P. (2009). From the abyss ...
Spencer, C. B., Morgan, J. og Parker, S.  (2008). The miracles of ...
Spencer, C. B., Morgan, J. og Smith, M. (2004). The ways the ...
Spencer, C. B., Morgan, J. og Smith, M. (2005). Into the ....

 

Heimild skal stafrófsraðað í heimildaskrá eftir fyrsta gildandi orði (t.d. ekki eftir The, An ...). Ef titillinn er „The new health-care system“ raðast heimildin undir N fyrir New.

ATH. Allar heimildir, nema munnlegar heimildir raðast í eina samfellda heimildaskrá skv. ofangreindum reglum, þ.m.t. ljósmyndir, myndskeið, töflur, línurit ...

Skáletrun í heimildaskrá

Þegar kemur að skáletrun titla í APA þá eru tvær reglur: 

1) skáletra skal alla titla á heimildum sem standa einar og sér, og eru ekki partur af stærri heild. Dæmi: bækur, skýrslur, lokaritgerðir, vefsíður, kvikmyndir, myndbönd, sjónvarpsseríur, YouTube myndbönd.

2) ekki skáletra titla sem eru einn partur af stærri heild. Dæmi: tímaritsgreinar, bókakaflar, dagblaðsgreinar, orðabókafærslur.

Í óvissutilfellum skal ekki skáletra. Þegar titlar eru skrifaðir inn í meginmál texta þá skal skáletra líka þar það sem er skáletrað í heimildaskrá. Ef titlar sem ekki eru skáletraðir í heimildaskrá eru skrifaðir í meginmál skal setja þá inn í gæsalappir. Þessi regla á einnig við um höfundalausar færslur í tilvísunum.

Heimildir á öðrum tungumálum

Leyfilegt er að nota heimildir á hvaða tungumáli sem er og þýða tilvitnanir úr þeim heimildum á tungumál viðkomandi verkefnis; íslensku eða ensku. Í þeim tilvikum þar sem óvíst er hvort lesendur verkefnisins skilji tungumál viðkomandi heimildar má þýða titla heimildar og setja í hornklofa í heimildakskrá.

Heimildaskrá:               
Bartels, G. (2010, 27. maí). Finanzkrise: Island, die Versuchsküche [Efnahagskreppa: Tilraunaeldhúsið Ísland]. Die Zeit. http://www.zeit.de/kultur/2010-05/island-gudmondsson
Tilvísun: (Bartels, 2010)