Skip to Main Content

APA staðall

Grunnatriði tilvísana

Hvenær skal vísa til heimilda

  • Tilvísun: lágmarksupplýsingar um heimildina sem vísað er í – full skráning heimildarinnar er að finna í heimildaskránni.
  • Tilvitnun: textinn sem fenginn er að láni úr ákveðinni heimild og annað hvort tekinn upp óbreyttur (bein tilvitnun) eða hann umorðaður (óbein tilvitnun).

Skylt er að vísa í upplýsingar sem fengnar eru úr verkum annarra höfunda annars vegar í meginmáli texta (tilvísanir) og hins vegar í lok ritgerðar eða verkefnis (heimildaskrá). Nauðsynlegt er að öll rit sem vísað er til í meginmáli séu talin upp í heimildaskrá, og öfugt. Undantekning frá þessari reglu eru munnlegar heimildir; þeirra er einungis getið í tilvísunum, en ekki í heimildaskrá (sjá kafla um munnlegar heimildir).

Hvenær vísa skal til heimilda (beinar og óbeinar tilvitnanir) 
Til að forðast ritstuld er mikilvægt að vita hvenær vísa skal til heimilda. Vísið ALLTAF til heimilda þegar;​

  • tekinn er orðrétt upp texti annars höfundar
  • texti annars höfundar er þýddur, umorðaður eða honum hagrætt
  • notuð eru tölfræðileg gögn eða niðurstöður könnunar eða rannsóknar annars höfundar
  • settar eru fram staðreyndir, hugmyndir eða skoðanir sem flokkast ekki sem almenn þekking
  • töflur og myndir (einnig ókeypis myndir af internetinu) líka þær sem merktar eru með Creative Commons leyfi

​Það er ekki nauðsynlegt að vísa til heimilda þegar fjallað er um eitthvað sem kallast gæti almenn þekking, s.s. að Ísland sé eyja, að mammúturinn sé útdauður, eða að handþvottur hamli útbreiðslu sýkla. Ef vafi er á hvort þörf sé á tilvísun, þá er alltaf betri kostur að vísa til heimildar, en að sleppa því. 

Tilvísanir

Algengasta form tilvísana er eftirfarandi; nafn höfundar*, ártal; t.d. (Margrét Lísa Pétursdóttir, 2003) eða (Wilson, 2001, bls. 47) fyrir tilvísun í eina ákveðna blaðsíðu; (Wilson, 2001, bls. 47-48) fyrir tilvísun þar sem textinn fer yfir á tvær blaðsíður.

Ef heimildin hefur tvo höfunda eru báðir teknir fram í tilvísun með og á milli.

Ef heimildin hefur þrjá eða fleiri höfunda er aðeins fyrsti höfundur tekinn fram í tilvísun og o.fl. fyrir aftan.

* ath. fullt nafn höfundar þegar heimild er skrifuð á íslensku (þ.e. ekki þýdd) en eftirnafn höfunda þegar heimildir eru skrifaðar á öðru tungumáli en íslensku (og eru ekki þýddar bækur).

Í fyrri sjúklingarannsókn (Wilson, 2001, bls. 7),  kom í ljós ...
Könnun á aðgengi fatlaðra (Jón Sigurðsson o.fl., 2003, bls. 115) leiddi í ljós ...

Ef nafn höfundar kemur fram inni í textanum, þarf aðeins ár og blaðsíðutal að koma fram í tilvísun ef um beina tilvitnun er að ræða.

Wilson (2001, bls. 7) rannsakaði sjúklinga og komst að þeirri niðurstöðu ...
Könnun Jóns Sigurðssonar o.fl. (2003) sýndi ...

 

Ef nafn höfundar og ártal kemur fram í textanum, þarf aðeins blaðsíðutalið að koma fram í tilvísuninni, ef kennari krefst þess að blaðsíðutals sé getið eða um beina tilvitnun er að ræða. Annars eru svigar óþarfir í þessu tilfelli.

Árið 2001 rannsakaði Wilson sjúklinga (bls. 7) og fann út að ...
Könnun Jóns Sigurðssonar o.fl. frá árinu 2003, leiddi í ljós ...

 

Í rafrænum heimildum þar sem blaðsíðutal vantar, s.s. á vefsíðum, má í stað blaðsíðutals setja númer málsgreinar, skammstafað mgr., ef þess er getið t.d. (Smith, 2009, mgr. 4). Einnig má tilgreina kaflaheiti og málsgreinanúmer innan kafla, t.d.

Í rannsókn sinni frá árinu 2009 segir Smith (Umræða, mgr. 4) ....

 

Ef fleiri en ein heimild er í heimildaskrá þar sem eftirnafn fyrsta höfundar er það sama en fornafn mismunandi skal skrá stytt fornafn/nöfn með í öllum tilvísunum, jafnvel þó ártalið sé mismunandi:

Tilvísun: (B. J. Carter og Jackson, 2019; S. Carter, 2011)

 

Ef höfundar innan sömu heimildar hafa sama eftirnafn þarf ekki að taka fram stytt fornafn í tilvísun:

Tilvísun: (Smith og Smith, 2003)

 

Þegar það eru tvær heimildir sem eru að segja sama hlutinn, þá skal setja þær heimildir inn í sömu tilvísunina með semi kommu á mili. 

Tilvísun: (Johnson, 2013; Fieldman og Roger, 2023)


Ef stytting á hugtaki kemur fyrir í sviga beint á undan tilvísun þá skal slá þessu saman í einn sviga með semi kommu á milli. (sjá nánari útskýringu)

Tilvísun: Beck Depression Inventory-II (BDI-II; Beck et al., 1996)
Tilvísun: (Beck Depression Inventory-II [BDI-II]; Beck et al., 1996)

 

Ef tvær eða fleiri heimildir eru eftir sama höfund og hafa sama ártal er gerður greinarmunur á þeim í tilvísun og heimildaskrá með því að bæta bókstöfum fyrir aftan ártal.

Tilvísun 1: (The University of British Columbia, 2017a) 
Tilvísun 2: (The University of British Columbia, 2017b)
Heimildaskrá 1: The University of British Columbia. (2017a, 21. september). Board of Governors agendahttps://bog3.sites.olt.ubc.ca/files/2017/09/AGE-BG-2017.09.21.pdf
Heimildaskrá 2: The University of British Columbia. (2017b, 22. nóvember). Board of Governors Governance Committee agendahttps://bog3.sites.olt.ubc.ca/files/2017/11/Governance-Committee-November-2017.pdf

Beinar tilvitnanir

Þegar texti er tekinn orðréttur úr heimild er talað um beina tilvitnun. Í slíkum tilfellum verður að geta höfundar, útgáfuárs og blaðsíðutals. Beinar tilvitnanir sem eru innan við 40 orð eru auðkenndar með gæsalöppum og felldar inní texta. Beinar tilvitnanir sem eru lengri en 40 orð eru hafðar inndregnar í texta (5 stafabil) án gæsalappa. Langar tilvitnanir þykja ekki prýða texta og er miðað við að bein tilvitnum sé ekki lengri en 10 línur.

Ekki er mælt með að nota beinar tilvitnanir nema í undantekningartilfellum þegar orðalag skiptir öllu máli. Reynið ávallt að endursegja texta með ykkar eigin orðum. Ekki er nóg að breyta bara aðeins setningaruppröðun. 

Athugið að þýðingar af einu tungumáli á annað teljast vera óbeinar tilvitnanir og hlíta því ekki ofangreindum reglum.

Blaðsíðutal þarf alltaf að fylgja þegar um beinar tilvitnanir er að ræða, sjá eftirfarandi dæmi: 

Tilvísun sett aftast:
„Inngangur hefst oftast á því að rannsóknin er sett í víðara samhengi“ (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2007, bls. 30).
Höfundur og ártal sett fremst og blaðsíðutal aftast:
Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson (2007) segja „Inngangur hefst oftast á því að rannsóknin er sett í víðara samhengi" (bls. 30). 

 

Ath. Þegar skrifað er á íslensku eru alltaf notaðar íslenskar gæsalappir„...“(niðri 99 og uppi 66) - en á ensku eru notaðar enskar gæsalappir "..." báðar uppi 66 og 99).

 

Fyrirtæki geta sett sér siðareglur sem „skiptast annars vegar í þær reglur sem opinberir aðilar og stjórnvöld setja og hins vegar í eigin reglur sem fyrirtækin setja sér sjálf“ (Ólafur Klemensson, 2003, bls. 2).

 

Ef bein tilvitnun er lengri en 40 orð þá er hún inndregin vinstra megin og án gæsalappa. Ekki á að breyta leturstærð eða línubili. Í þessu tilfelli er punktur settur á undan tilvísanasviganum.

Vegna þess hve hreyfiþroskinn er reglulegur við eðlilegar aðstæður er oft tekið mið af honum þegar meta á þroska barns á fyrstu árum ævinnar. Varhugavert er þó að draga of viðtækar ályktanir af honum því rannsóknir hafa sýnt að örum hreyfiþroska fylgir ekki sjálfkrafa ör vitsmunaþroski. (Aldís Unnur Guðmundsdóttir, 2013, bls. 115)

Ef orð eða hluti texta er felldur út úr beinum tilvísunum eru settir inn þrír punktar í stað þess sem fellt er út. Einnig ef felldur er út texti milli setninga, þá eru settir inn fjórir punktar (þ.e. þrír punktar fyrir orð sem felld eru út og einn punktur fyrir greinarmerki).

„Ágreiningur endurskoðenda og stjórnenda ... er ræddur og komast þeir oftast að samkomulagi. .... Það er ekki hlutverk endurskoðenda að meta hvort viðskiptaráðstafanir fyrirtækis eru skynsamar eða hagkvæmar“ (Endurskoðandinn, 2001, Ágreiningur).

Ef heimildin hefur ekki blaðsíðutal, t.d. vefsíða skal notast við bestu aðferðina til að hjálpa lesendanum til að finna beinu tilvitnunina, meðal annars með því að setja kafla heiti eða einhverja fyrirsögn. 

Óbeinar tilvitnanir

Ekki þykir gott að nota mikið af beinum tilvitnunum í texta. „Beinar tilvitnanir á alla jafna að nota sparlega“ (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2018, bls. 131).

Mælst er með að nota frekar óbeinar tilvitnanir þar sem texti er endursagður með eigin orðum. Í slíkum tilvikum eru ekki notaðar gæsalappir, hins vegar er höfundar og útgáfuárs rits getið. Valkostur í staðlinum er að nota líka blaðsíðutal þegar vitnað er óbeint til heimilda, sérstaklega þegar bækur eru notaðar, og getur kennari óskað eftir því enda auðveldar það að finna hvar tilvitnunin er staðsett í heimild. 

Hægt er að haga orðalagi óbeinna tilvitnanna á fleiri en einn veg. Einnig geta tilvísanir, þ.e. hvernig vitnað er í heimildir, verið mismunandi. Sjá eftirfarandi dæmi:

  • Apar ná ekki tökum á setningafræði. Það staðfesta tilraunir manna til að kenna þeim að tala (Gleitman, 1986).
  • Af tilraunum manna til að kenna öpum að tala má vera ljóst að þeir ná ekki tökum á setningarfræði (Gleitman, 1986, bls. 72). 
  • Árið 1986 sýndi Gleitman fram á að apar ná ekki tökum á setningafræði.
  • Rannsóknarniðurstöður Gleitmans (1986) staðfesta að apar ná ekki tökum á setningafræði.

Þegar heimild er á ensku eða öðru erlendu tungumáli og nemandi þýðir texta yfir á íslensku þá telst hann vera óbein tilvitnun. Ef heimildin er á öðru tungumáli en ensku, t.d. frönsku, pólsku, spænsku .. er æskilegt að þýða titil heimildarinnar í heimildaskrá í hornklofa yfir á sama tungumál og ritgerðin er á. Ef ritgerð er á íslensku og heimildin er á ensku þá má sleppa því að þýða titilinn á íslensku. Sjá frekari útskýringu hjá APA style blogginu

Ath. Samkvæmt APA staðlinum eru blaðsíðutöl ekki nauðsynleg þegar vísað er óbeint í heimildir annarra höfunda, en margir kennarar og leiðbeinendur mælast til þess að gefið sé upp blaðsíðutal.