Skip to Main Content

IEEE staðall

IEEE heimildastaðall er notaður í eftirfarandi deildum HR: iðn- og tæknifræði, verkfræði og tölvunarfræði.

Heimildaskráning

 

Heimildaskrá birtist á sérstakri síðu í lok verkefnis og inniheldur upplýsingar um allar þær tilvísanir sem koma fyrir í meginmáli. 

Númer tilvísana í textanum segja til um röðun heimilda í heimildaskránni. Á þann hátt er tilvisun númer [1] í texta alltaf heimild númer [1] í heimildaskrá. Tilvísun númer [2] í texta er heimild númer [2] í heimildaskrá og svo koll af kolli. 

Heimildaskrá skal byrja á nýrri blaðsíðu aftast í verkefni og hafa titilinn Heimildir sem fyrirsögn.

 

Áður en byrjað er að setja heimild inn í heimildaskrá þarf að ákveða tegund heimildarinnar. Heimildir geta verið bækur, tímaritsgreinar, skýrslur, vefsíður, lög og reglugerðir, myndbönd, hljóðupptökur og margt fleira. Það skiptir máli að heimild sé rétt skilgreind af því að það eru mismunandi upplýsingar sem þurfa að koma fram fyrir mismunandi tegundir. Til dæmis þarf að taka fram útgefanda fyrir bækur en ekki fyrir tímaritsgreinar. 


Nafnritun

Nöfn höfunda og ritstjóra eru ávallt skrifuð sem upphafsstafur fyrsta nafns (og millinafns) með punkti á eftir og svo kemur eftirnafn.

Undantekning á reglunni eru nöfn höfunda á heimildum sem eru ritaðar á íslensku og teljast ekki til þýðinga. Þá má fylgja íslenskri nafnahefð þar sem fornafn er skrifað óstytt. 

Dæmi um heimild á erlendu tungumáli: 
L. Stein, E.F. Moore, M. Abramowitz ...

 

Dæmi um heimild á erlendu tungumáli með íslenskum og erlendum höfundum:                
J. Jónsson, F. Smith, R. Dawson, S. K. Olsen ...  

 

Dæmi um heimild á íslensku:           
Jón Jónsson, Bryndís Kolbeinsdóttir, Ólafur Sveinsson, Jörgen Pind ...

 

Starfstitlar / Heiðurstitlar
Ekki skal rita starfstitla eða heiðurstitla, líkt og Dr., Col. Professor, Sir o.s.frv., við nöfn höfunda í heimildaskrá. Það er hins vegar ásættanlegt að hafa þessa titla með í meginmáli skjalsins. 


Fjöldi höfunda og röðun
Aldrei breyta innri röðun höfunda í heimild. Ef höfundar eru sex eða færri skal taka fram nöfn allra með og, eða and ef skrifað er á ensku, á undan síðasta nafni. Ef höfundar eru sjö eða fleiri skal aðeins taka fram nafn fyrsta höfundar og skrifa svo o.fl., eða et al ef skrifað er á ensku.

Einnig skal nota o.fl. ef nöfn höfunda eru ekki tilgreind í heimild, þ.e.a.s. það stendur et al. í staðinn fyrir öll nöfn höfunda.

Dæmi um heimild með sjö eða fleiri höfunda: 
P. Chowdhury o.fl. 

 

 

 

 

Þegar taka skal fram útgáfustað þarf að taka fram borg og land. Ef útgáfustaður er borg í Bandaríkjunum skal taka fram borgina og skammstafa fylkið.

Dæmi USA:           
Boston, MA, Bandaríkin
Orlando, FL, Bandaríkin
New York, NY, Bandaríkin

Dæmi annað:       
Frieburg, Þýskaland
Perth, Ástralía
Waterford, Írland
Reykjavík, Ísland

Alltaf skal stytta mánaðaheiti og nota fyrstu þrjá stafina. Ekki skrifa mánuði með stórum staf nema í byrjun setningar.

Dæmi:
jan., feb., mar., ...

Rafrænar heimildir

Meginreglan þegar vísað er í rafrænar heimildir er að fylgja sömu reglum og gilda um prentheimildir en bæta við DOI (Digital Object Identifier) auðkenni aftast ef það er til staðar fyrir rafrænar tímaritsgreinar. Fyrir aðrar rafrænar heimildir skal bæta við fyrir aftan venjulegu skráninguna [Rafrænt]. Aðgengilegt á: http://... . Einnig er í lagi að nota Af: í staðin fyrir Aðgengilegt á: