Skip to Main Content

Lögfræði: Áreiðanleiki og ritrýni

Ritrýni

Yfirleitt er talið að ritrýndar tímaritsgreinar séu einna áreiðanlegustu heimildirnar og því er oftast reynt að styðjast við slíkar heimildir í verkefnavinnu. En hvað er ritrýni?

Ritrýni er gæðaferli sem tímaritsgreinar í fræðitímaritum þurfa að fara í gegnum:

 • ritstjórn og útgefendur sérfræðitímarita fá sérfræðinga, sk. ritrýna,  til að lesa yfir og meta efnistök, aðferðir, fræðilegt samhengi og úrvinnslu gagna í greininni
 • ritrýnar eru alltaf sérfræðingar á sama sviði og höfundur viðk. greinar
 • ritrýnar koma með athugasemdir sem höfundur þarf að hlíta til að fá grein sína birta í viðk. tímariti
 • eftir að höfundur hefur skilað aftur inn grein sinni eru ýmist gerðar fleiri athugasemdir, greinin samþykkt til birtingar eða henni hafnað
 • ritrýnar eru oftast fleiri en einn og höfundur greinar fær ekki að vita hver ritrýnir grein hans, né fá ritrýnar að vita nafn höfundar (tvíblind ritrýni)
 • ritrýnar starfa alltaf kauplaust

Dæmi um hvernig ritrýni í íslenskum tímaritum er háttað:

Fleiri heimildir en ritrýndar tímaritsgreinar geta verið áreiðanlegar heimildir, s.s. bækur og vefsíður.

Bækur almenns eðlis eru ekki ritrýndar. Fræðibækur, s.s. kennslubækur, eru í flestum tilfellum skrifaðar af sérfræðingum í viðk. fagi og teljast því áreiðanlegar heimildir. Slíkar bækur fara í gegnum ákveðið gæðaferli hjá útgefendum þar sem ritstjóri/-ar halda utan um útgáfu bókar og koma með ábendingar um það sem betur má fara.  Háskólaútgáfur, s.s. Háskólaútgáfan, Oxford University Press og Yale University Press, senda handrit bóka til ritrýna (sjá skipulag og forsendur ritrýni hjá Háskólaútgáfunni), en ritrýni bókanna er ekki samskonar og þegar um greinar í sérfræðitímaritum er að ræða. Þá getur verið erfitt að komast að því hvort einstaka bækur hafi verið ritrýndar, en eins og áður er komið fram er ákveðið gæðaferli í gangi hjá flestum háskólaútgáfum og öðrum útgáfum fræðibóka.

Vefsíður eru ekki ritrýndar heimildir og falla ekki allar undir þá skilgreiningu að vera áreiðanlegar heimildir. Vefsíður sem vistaðar eru hjá opinberum stofnunum ættu þó í flestum tilfellum að flokkast sem áreiðanlegar heimildir.

Neðangreind viðmið eru oft notuð til að meta áreiðanleika vefsíðna:

Traustur ábyrgðaraðili

 • Hver er höfundur efnis? Er hægt að hafa samband við hann - er t.d. gefið upp netfang höfundar?
 • Hefur höfundur sérþekkingu á því sviði sem fjallað er um -  er hann t.d. sérfræðingur hjá  stofnuninni sem vefsíðan er vistuð hjá?
 • Hefur höfundur skrifað meira um efnið? "Googlið" höfundinn, sláið nafni hans upp í bókasafnskerfum.
 • Athugið að gera mun á ritstjóra vefsíðu og höfundi efnis.
 • Skoðið endingu slóðarinnar (URL-sins). Endar slóðin á ... 
  .gov (governmental entity - stjórnsýslustofnun)

  .edu (educational institution - menntastofnun) 
  .org (organisation – stofnun eða félagasamtök sem hefur engan fjárhagslegan ávinning af starfsemi sinni) 
  .com (commercial entity – fyrirtæki og/eða þjónusta) 
  Slóðir sem enda á .gov .edu og .org ættu að vera traustverðugar stofnanir, en .com slóðir eru í mörgum tilfellum vefir sem hafa það fyrst og fremst að markmiði að selja vörur og/eða þjónustu. 

 • Hver gefur síðuna út, þ.e. hver hýsir síðuna? Skoðið fyrsta hluta slóðarinnar (URL-sins) þ.e. þann hluta sem kemur strax á eftir http://www.xxx.xx Er það einstaklingur, háskóli, stofnun, fagfélag ...?

Óhlutdræg umfjöllun

 • Hver er tilgangur vefsíðunnar, að fræða, tjá skoðun, birta staðreyndir, fréttir, selja ...? 
 • Hve nákvæmar eru upplýsingarnar sem koma fram?
 • Er umfjöllunin einhliða eða er fjallað um efnið frá fleiri en einu sjónarhorni? Ber málfarið merki fordóma? Samrýmast upplýsingar á vefsíðunni öðrum heimildum um sama efni?

Nýjar upplýsingar

 • Hvenær var síðan unnin?
 • Hvenær var síðan uppfærð síðast?
 • Eru tenglar á síðunni virkir?
 • Vísa tenglarnir í "góðar/áreiðanlegar" vefsíður og bæta þeir einhverju við efni vefsíðunnar?

Tímaritsgreinar á netinu (sem eru fundnar með leit í leitarvélum s.s. Google eða Google Scholar) geta verið ritrýndar eða óritrýndar. Reynið að finna út í hvaða tímariti viðkomandi grein hefur birst. Skoðið heimasíður tímaritsins (fyrirtækið sem gefur út tímaritið) og þá helst „Submission guidelines“ eða „Information for authors“ þar sem fram kemur hvaða gæðaferli greinar í tímaritinu fara í gegnum. Einnig má slá titli viðkomandi tímarits inn í tímaritaskrá bókasafnsins og ef tímaritið er ritrýnt þá stendur það þar.

Ritrýnd íslensk tímarit

Íslensk tímarit með ritrýndum fræðigreinum í fullum texta í rafrænum aðgangi

* Viðkomandi tímarit er á ISI listanum (Institute for Scientific Information), en þessi tímarit eru einu íslensku tímaritin sem eiga sæti á þeim lista.