Skip to Main Content

Lögfræði: Ritstuldur

Ritstuldur

Vísindavefurinn skilgreinir ritstuld sem „það að eigna sér hugverk annarra eins og þau væru eftir mann sjálfan“.  Ritstuldur nær þannig ekki einungis til þess að eigna sér ritverk annarra heldur öll hugverk, hvort sem verkin eru rituð, leikin, byggð, máluð, hönnuð, ljósmynduð, prjónuð ...

Ritstuldur varðar við íslensk Höfundalög nr. 73/1972, og þeirra viðurlaga sem lögin kveða á um. Höfundalög ná til hugverka sem teljast birt, þ.e. þegar eintök af verkinu með réttri höfundarheimild eru boðin til sölu, láns eða leigu, eða dreift til almennings með öðrum hætti, í einhverju magni.

HR leggur mikla áherslu á vönduð akademísk vinnubrögð eins og víða er kveðið á um í reglum skólans.

Í Reglum um verkefnavinnu er gerð sú krafa til nemenda að þeir virði höfundarétt og að öll verkefni sem nemendur skila séu þeirra eigin hugverk. Einnig skal hvert verkefni sem nemandi skilar vera einstakt. Með því er átt við að öll endurnýting verkefna, hvort heldur er innan námskeiðs, milli námskeiða eða milli námsbrauta er óheimil, nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Þá segir í 8. grein Siðareglna HR: "Við virðum hugverkaréttindi, eignum okkur ekki heiðurinn af hugmyndum annarra, og getum ávallt þeirra heimilda sem við notum, í samræmi við venjur vísindasamfélagsins."

Í Náms og námsmatsreglum HR er einnig lögð áhersla á virðingu hugverka skv. eftirfarandi: "HR gerir þá kröfu til þín sem nemanda að öll verkefni sem þú skilar séu þitt eigið hugverk. Í því felst meðal annars að þú vinnur verkefnið sjálf(ur) frá grunni, án aðstoðar annarra, og tekur aldrei upp texta annarra eða vinnu annarra og setur fram sem þitt eigið verk. Ávallt skal geta heimilda og reglur um heimildanotkun gilda einnig um afritun eigin verka. Hvert verkefni sem skilað er, skal vera einstakt. Öll endurnýting verkefna, hvort heldur er innan námskeiðs, milli námskeiða eða milli námsbrauta er óheimil, nema annað sé tekið fram."

Háskólinn hefur tekið upp Turnitin ritstuldarvörnina sem gerir notendum kleift að koma auga á ritstuld og/eða rangar tilvísanir og heimildaskráningu.  

Reglur um ritstuld (hugverkastuld) eiga við í forritun sem annars staðar. Ef tölvukóði er fenginn að láni og minniháttar breytingar gerðar sem engin áhrif hafa á virkni forritsins, þá er ekki hægt að tala um að um nýtt forrit sé að ræða og eigna sér það sem slíkt.

Forritið hér fyrir neðan er af blaðsíðu 118 í bókinni Algorithms in C eftir Robert Sedgewick, sem gefin var út af Addison-Wesley árið 1990.

Source: quicksort (int a [ ], int l, int r)
     {
         int v, i, j, t;
         if (r > l)
            {
               v = a [ r ]; i = l-1; j = r;
               
               for ( ; ; )
                   {
                      while (a [++i ] < v) ;
                      while (a [--j] > v);
                      if (i >= j) break;
                      t = a [i]; a [i] = a [j]; a [j] = t;
                   }
               t = a [i]; a [i] = a [r]; a [r] = t;
               quicksort (a, l, i-1);
               quicksort (a, i+1, r);
            }
     }

Dæmi 1 um ritstuld forritsins hér að ofan:

mysort (int data[], int x, int y){
(B)=(A);}
   int pivot;
   int i, j;
   int temp;
   
   if (y > x){
       pivot = data[y]; i = x-1; j = r;
       while (1){
           while (data [++i] < pivot);
           while (data [--j] > pivot);
           if (i >= j) break;
           temp = data [i]; data [i] = data [y]; data [y] = temp;
       }
       temp = data [i]; data [i] = data [y]; data [y] = temp;
       mysort (data, x, i-1);
       mysort (data, i + 1, y);
   }
}

Heimild: Avoiding plagiarism: Writing computer code (University of Pennsylvania).

Þetta telst ritstuldur þar sem uppbygging forritsins er hin sama og upprunalega forritsins, einungis minniháttar breytingar hafa verið gerðar á kóðanum og þær breytingar hafa engin áhrif á virkni forritsins. Óreyndu auga kann að virðast þessi kóði ólíkur hinum upprunalega, en þar sem virkni þessa forrits er hin sama og upprunalega forritsins, þá telst þetta ritstuldur.

Upprunalega kóðanum hefur verið breytt á eftirfarandi máta:

  • Nöfnum breyta hefur verið breytt: alrv og t er skipt út fyrir dataxypivot og temp (í þessari röð)
  • Skipuninni for (;;) var skipt út fyrir jafngildu skipunina while (1)
  • Nafni á aðgerðinni quicksort var breytt í mysort
  • Inndrætti í kóðanum var breytt og skiptingu hans milli lína


Dæmi 2 um ritstuld forritsins hér að ofan:

#define Swap(A,B) { temp=(A); (A)=(B); (B)=A;}

void mysort (const int* data, int x, int y){
   int temp;
   while (y > x){
      int pivot = data[y];
      int i = x-1;
      int j = r;
      while (1){
         while (data [++i] < pivot){/*do nothing*/}
         while (data --j] > pivot){/*do nothing*/}
         if (i >= j) break;
         swap (data [i], data [y];
         }
swap (data [i], data [j];
         mysort (data, x, i-1);
         x = i+1;
    }
}

Source: Avoiding plagiarism: Writing computer code (University of Pennsylvania).
 

Þetta er einnig dæmi um ritstuld, því þó veigameiri breytingar hafi verið gerðar hér á upprunalega kóðanum (jafnvel bætt um betur), þá er hér enn verið að notast við kóðann í upprunalega forritinu úr kennslubókinni. Breytingar eins og þessar eru sambærilegar við umorðanir á texta án þess að getið sé heimilda fyrir textanum.

Brian Martin prófessor í félagsvísindum við háskólann í Wollongong í Ástralíu og lengi formaður "Whistleblowers Australia" skilgreinir nokkrar tegundir ritstuldar:

Orðréttur ritstuldur: Augljósasta tegund ritstuldar - texti tekinn orðrétt úr birtu verki án þess að setja í gæsalappir, aðgreina frá texta höfundar eða vísa til heimildar.

  • Endursagnarritstuldur: Orðum og/eða setningum breytt eða hnikað til, t.d. aðeins vitnað til fyrstu setningar í málsgrein, en sá sem skrifar lætur sem annað sé frumsamið, þó öll málsgreinin sé tekin úr sömu heimild.
  • Ritstuldur frumheimildar úr afleiddri heimild: Vísað er til frumheimildar sem annar höfundur notaði í sínu ritverki sem lesinnar heimildar án þess sá sem skrifar að hafi sjálfur séð heimildina, lesið hana eða rannsakað. Sérstaklega alvarlegt ef höfundur getur ekki ritsins þar sem hann fann viðkomandi frumheimild og lætur sem hann hafi lesið frumheimildina og unnið með hana.
  • Rannsóknastuldur: þegar rannsóknarspurning, röksemdafærsla og/eða rannsóknaniðurstöður úr birtu verki eftir annan höfund eru settar fram sem eigið verk.
  • Hugmyndastuldur: Algengasta tegund ritstuldar - þegar hugmynd er tekin frá öðrum án þess að vitnað sé til heimildar. Hér undir falla einnig stuldur á rannsóknar- eða viðskiptahugmynd, þ.e. hugmynd að hugverki sem tekin er frá öðrum.
  • Höfundastuldur: Sá sem skilar inn ritverki lætur sem hann sé höfundur þess í heild sinni, en er það ekki.
  • Stofnanaritstuldur: Algengur í opinberri stjórnsýslu, hjá stofnunum og stórfyrirtækjum. Aðstoðarmenn skrifa ræður eða vinna verk fyrir yfirmenn og stjórnendur, sem eigna sér verkið (m.a. sk. draugapennar og ræðuhöfundar stjórnmálamanna).

Martin, B. (1994). Plagiarism: A misplaced emphasis. Journal of Information Ethics, 3(2), 36-47. Sótt 31. október 2016 af http://bmartin.cc/pubs/94jie.pdf
 

  • Eiginstuldur (self-plagiarism): Texti sem á að vera einstakt hugverk er birtur eða skilað oftar en einu sinni. Samkvæmt reglum HR er nemendum óheimilt að nota eigin texta oftar en einu sinni í sama námskeiði, eða "endurnýta" verkefni úr einu námskeiði í öðru námskeið. Nemendum er einnig óheimilt að nota eigið lokaverkefni úr grunnnámi í meistaraverkefni sínu á þess að geta heimildar og fá til þess leyfi leiðbeinanda síns.
    Í fræðasamfélaginu er illa séð ef fræðigrein birta sömu grein í fleiri en einu vísindatímariti. Samkvæmt APA-staðlinum, staðli amerísku sálfræðisamtakanna (American Psychological Association), er ekki leyfilegt að birta áður birtar greinar undir þeim formerkjum að um nýtt efni sé að ræða, enda eigi hver grein að innihalda nýja þekkingu í viðkomandi fagi. 


DÆMI UM ÓBEINA TILVITNUN 
(um beinar tilvitnanir sjá skráningarstaðlana APA, IEEE og OSCOLA):

Upprunalegur texti
 úr bókinni Story of Mexico eftir Conrad Stein útgefin af Morgan Reynolds í Greensboro North Carolina árið 2007: „Í meira en tíuþúsund ár hafa menn búið þar sem nú heitir Mexíkó. Fyrstu þjóðflokkarnir voru flokkar veiðimanna sem drápu risavaxna mammúta á hásléttunni. Um 7000 fyrir Krist lærðu veiðimennirnir að rækta korn. Veiðimannasamfélög Mexíkó urðu smám saman landbúnaðarsamfélög. Með landbúnaði kom stöðugleiki i samfélagið og upp úr því þróuðust menningarsamfélög.“

Óbein tilvitnun (ófullkomin): Undanfarin 10 þúsund ár hefur verið búið í Mexíkó. Þá voru risavaxnir mammútar drepnir af flokkum veiðimanna á hásléttunni. Löngu fyrir tíma Krists lærðu veiðimennirnir að rækta korn og þannig urðu veiðimannasamfélögin að landbúnaðarsamfélögum og með því kom stöðugleiki í samfélagið og menningarsamfélög þróuðust.
Ekki er nóg að breyta einu og einu orði þegar gera á óbeina tilvitnun heldur þarf að fá lánaða hugmyndina og setja hana í þín orð. Hér vantar líka tilvísunina (APA: svigi með grunnupplýsingum um heimildina, þ.e. nafni höfundar og ártali; IEEE númer í hornklofa [1]; OSCOLA númer í hávísi og númeruð neðanmálsgrein)

Aðalatriði úr upprunalegum texta:

  • Fyrstu þjóðflokkar í Mexíkó voru veiðimenn
  • Eftir að hafa lært að rækta korn urðu veiðimennirnir bændur
  • Landbúnaður varð til þess að „menningarsamfélög þróuðust“

Óbein tilvitnun (hugmyndin fengin að láni, orðuð með þínum orðum og vísað rétt til heimildar): Fyrstu þjóðflokkar í Mexíkó voru veiðimenn. Eftir að hafa lært að rækta korn urðu veiðimannaþjóðflokkarnir bændur. Kornrækt og landbúnaður var mjög mikilvægt í samfélagsmyndun í Mexíkó því það stuðlaði að myndun menningarsamfélaga APA (Stein, 2007) IEEE [1] OSCOLA 1

Notkun Chat GPT eða annarra spjallmenna sem byggja á gervigreind fellur undir Almennar reglur um nám og námsmat, kafla 4.6 lið 5a 

„HR gerir þá kröfu til nemanda að öll verkefni sem hann skilar séu hans eigið hugverk. Í því felst meðal annars að hann vinni verkefnið sjálfur frá grunni, án aðstoðar annarra, og taki aldrei upp texta eða vinnu annarra og setji fram sem sitt eigið verk. Ávallt skal geta heimilda og reglur um heimildanotkun gilda einnig um afritun eigin verka.“

Gervigreind nýtir manngerðan texta til að mynda svör sín og þar af leiðandi fellur slíkur texti ekki undir þá skilgreiningu að nemandi hafi unnið verkefnið sjálfur frá grunni.

Ekki er hægt að ábyrgjast gæði og áreiðanleika þeirra upplýsinga sem spjallmenni veita auk þess sem þær eru ekki rekjanlegar. Þessi atriði eru öll nauðsynleg í verkefnavinnu.