Skip to Main Content

Þjónustan og safnið: Um bókasafnið

Um bókasafnið

Hlutverk bókasafns og upplýsingaþjónustu HR er að styðja og efla sköpun og miðlun þekkingar við Háskólann í Reykjavík með því að safna efni á fræðasviðum skólans, gera það aðgengilegt og veita notendum safnsins góða þjónustu. 

Þjónusta er kjarninn í starfsemi bókasafnsins. Þjónustan er einkum ætluð nemendum og starfsfólki Háskólans í Reykjavík. Öllum er þó velkomið að heimsækja safnið á auglýstum afgreiðslutíma og nýta sér safnkostinn.

Alla virka daga er upplýsingafræðingur á vakt til að aðstoða við heimildavinnu. Hægt er að panta tíma eða líta við á auglýstum afgreiðslutíma.

Fræðsla er mikilvægur þáttur í þjónustu safnsins. Markmið fræðslunnar er tvíþætt. Hún miðar að því að efla með notendum færni í upplýsingalæsi, þ.e. að finna, nota og meta upplýsingar með faglegum og ábyrgum hætti og kynna bókasafnið og fjölbreyttar upplýsingalindir þess fyrir nemendum og starfsfólki.

Stærstur hluti safnefnis er á rafrænu formi og til að það nýtist nemendum sem best í námi sínu við háskólann þurfa þeir að þekkja leiðir til að nálgast efnið og kunna skil á innihaldi þess. 

Samstarf um rafræna miðlun safnkosts er bókasafninu mikilvægt. Bókasafnið er áskrifandi að bókasafnskerfinu Leitir.is. Leitir er samskrárkerfi íslenskra bókasafna og upplýsingamiðstöðva. Landskerfi bókasafna sér um rekstur kerfisins, en starfsmenn safnsins reyna að leggja sitt af mörkum til áframhaldandi þróunar kerfisins og innleiðingar nýjunga sé leitað til þeirra um slíkt.

Annað mikilvægt samstarfsverkefni er Landsaðgangur að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum í umsjón Landsbókasafns Íslands. Loks má nefna þátttöku bókasafnsins í Skemman.is og Opinvisindi.is rafrænum varðveislusöfnum íslenskra háskóla og Íris, kerfi fyrir íslenskar rannsóknir.

Aðgengi fyrir fatlaða

Bókasafnið býður upp á gott aðgangi fyrir fatlaða. Bókasafnið er staðsett á jarðhæð í byggingunni og það eru engir þröskuldar. 

Salerni með aðstöðu fyrir fatlaða er fyrir utan bókasafnið. 

Aðstaðan

Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Í lokuðu rými eru þrjár lesstofur og fjögur hópvinnuherbergi. Í opnu rými eru tvær borðtölvur, vinnuborð og hægindasófar fyrir hópa og einstaklinga.

Á safninu gildir fyrirkomulagið „fyrstir koma, fyrstir fá“, en óheimilt er að taka frá borð. Starfsfólki er heimilt að rýma borð sem staðið hafa ónotuð lengur en klukkustund. Áhersla er á að það ríki friður og ró í lesaðstöðu á bókasafninu og að nemendur geti einbeitt sér að náminu án truflunar.

Prent- og ljósritunaraðstaða er í prentstofu við inngang á bókasafnið. Þar er hægt að prenta, ljósrita og skanna í lit og svart/hvítu. Prentstofan er opin þegar skólinn er opinn.

Hópvinnuherbergi

Á bókasafninu eru fjögur hópvinnuherbergi, Ú106, Ú107, Ú108 og Ú109 sem eru aðgengileg nemendum allan sólarhringinn, eða á meðan nemendur hafa aðgang inn á safnið. Bókunarskjár er fyrir framan hvert herbergi.

Reglur fyrir hópvinnuherbergi:

  1. Herbergið er aðeins fyrir 2 eða fleiri
  2. Hergbergið má aðeins bóka í 4 klst. á dag fyrir hvern hóp
  3. Aðeins er hægt að bóka samdægurs
  4. Ekki má vera með mat í herberginu
  5. Vinsamlegast fjarlægið allt rusl

Saga safnsins

Bókasafn HR var opnað formlega í janúar 1999 af Birni Bjarnasyni þáverandi menntamálaráðherra. Frá upphafi hefur það verið yfirlýst stefna stjórnenda að nýta upplýsingatæknina sem mest við uppbyggingu safnsins og er safnkostur þess að stærstum hluta rafrænn. Árið 2003 hófst rekstur Miðstöðvar Evrópuupplýsinga (EDC) á safninu. Miðstöðin var grundvölluð á samningi milli Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Evrópuréttarstofnunar HR. Frá sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík árið 2005, var bókasafnið á tveimur stöðum. Lengst af á Höfðabakka og í Ofanleiti, en á vormisseri 2010 í Ofanleiti og í Nauthólsvík. Eftir flutning í Nauthólsvík er bókasafnið staðsett í Úranusi á 1. hæð. Fyrsti forstöðumaður safnsins var Sólveig Þorsteinsdóttir, 1998 - 2001, og á eftir henni var Guðrún Tryggvadóttir, 2001 - 2016, á eftir henni var Sara Stef. Hildardóttir, 2016-2022. Núverandi forstöðumaður er Ragna Björk Kristjánsdóttir, tók við í febrúar 2022.

Aðstaðan - myndir