Gott er að íhuga birtingu í opnum aðgangi þegar kemur að útgáfu tímaritsgreina.
Opinn aðgangur (e. open access) er opinn, ókeypis aðgangur að heildartexta fræðigreina og öðru fræðilegu efni s.s. rannsóknargögnum og skýrslum á Internetinu. Leyfilegt er að lesa og nota efnið, dreifa og afrita, með því skilyrði að vitnað sé rétt til höfundar. Birting í opnum aðgangi er í sumum tilfellum val en kröfur um birtingu rannsókna í opnum aðgangi aukast jafnt og þétt. Í Stefnu Háskólans í Reykjavík um opinn aðgang, sem samþykkt var í framkvæmdastjórn þann 13. nóvember 2014, eru starfsmenn HR hvattir til að birta afurðir vísindastarfa sinna í opnum aðgangi.
Tvær leiðir eru helstar þegar birta á í opnum aðgangi; gullna leiðin og græna leiðin. Gullna leiðin er birting í tímaritum í opnum aðgangi og hefur hún yfirleitt í för með sér kostnað sem fellur á höfund eða stofnun hans. Græna leiðin felur í sér samhliða birtingu í tímariti og vistun í varðveislusafni stofnunar eða fræðilegu varðveislusafni (t.d. Skemman, Hirslan, arXiv, Europe PMC).
Upplýsingar um útgáfustefnu einstakra útgefenda og tímarita eru aðgengilegar á SherpaRomeo.
Lög og yfirlýsingar um opinn aðgang
Ýmislegt um opinn aðgang
Plan S - Science Europe stendur að baki Plan S ásamt fjölda hagsmunaaðila í rannsóknum en frá 2021 verða allar vísindagreinar sem styrktar eru af opinberum- og einkasjóðum birtar í tímaritum í opnum aðgangi eða vistaðar samhliða í opnum varðveislusöfnum án birtingartafa. Megináherslur og framkvæmd Plan S.
Coalition S - alþjóðlegt bandalag rannsóknarsjóða með stuðning frá the European Commission and the European Research Council (ERC). Markmið þeirra er að hrinda af stað innleiðingu á Plan S og markmiðum þess. Rannsóknarsjóðir, bæði einka- og opinberir, sem hafa áhuga á að gerast aðilar að bandalaginu eru hvattir til þess.
Open Access Overview - Peter Suber forstöðumaður Harvard Office for Scholarly Communication og forstöðumaður Harvard Open Access Project