Skip to Main Content

Þjónusta við kennslu

Fræðsla inn í kennslu

Þjónusta bókasafnsins við kennslu er tvíþætt. Hún felst annars vegar í fræðslu, upplýsingaráðgjöf og leiðbeiningum í tengslum við verkefnavinnu nemenda, hins vegar í því að bjóða uppá fjölbreytt efni á prenti og rafrænu formi til nota í námskeiðum sem ítarefni, kennsluefni og heimildir.

Boðið er uppá kynningar fyrir kennara, bæði einstaklinga og hópa. Tengiliðir deilda sérhæfa sig í upplýsingum á fræðasviði einstakra deilda og leggja sig fram um að bjóða starfsmönnum þeirra sem besta þjónustu.

Helstu fræðsluleiðir eru:

 • Kynningar á þjónustu bókasafnsins. Almennar kynningar á nýnemadögum, sérhæfðar kynningar á efnissviði eða fyrir einstaka hópa s.s. nemendur í MPM námi, nemendur Iceland School of Energy og doktorsnema.
 • Nemendur á fyrsta ári. Fræðsla með áherslu á að nemendur þekki viðurkennd gagnasöfn á fræðasviði og geta leitað að upplýsingum í þeim. Fræðslan er skipulögð í samráði við deildir og/eða einstaka kennara.
 • Upprifjun í tengslum við lokaverkefni; heimildaleitir, heimildaskráning, skil í Skemmu og fleira hagnýtt. Fræðslan er skipulögð í samráði við deildir og/eða einstaka kennara.
 • Fræðsla í námskeiðum sérsniðin að þörfum viðkomandi námskeiðs samkvæmt óskum kennara.
 • Kennsla í notkun heimildaskráningarforritsins Zotero.
 • Bókaðu fræðslu hjá tengilið þinnar deildar með því að senda tölvupóst á þinn upplýsingafræðing

Markmið:

 • Auka leikni og sjálfstæði notenda bókasafnsins við að afla sér upplýsinga og heimilda á einstökum fræðasviðum og styrkja þá með því í námi og starfi við HR
 • Þjálfa með einstaklingum leikni sem auðveldar þeim að tileinka sér nýja þekkingu og standast vaxandi kröfur atvinnulífsins um símenntun (e. lifelong learning)
 • Kynna bókasafnið og rafrænan safnkost þess, sérstaklega viðurkennd gagnasöfn á einstökum fræðasviðum, í því skyni að hámarka nýtingu hans og gagnsemi fyrir starfsemi HR

Fræðsla bókasafnsins hefur að leiðarljósi að nemendur sýni:

 • Metnað til að sækja sér bestu upplýsingar sem henta viðfangsefninu hverju sinni.
 • Heilindi til að vinna með gögn og upplýsingar á ábyrgan og faglegan hátt
 • Færni til sjálfstæðra vinnubragða

Vinnubrögð í háskólanámi gera þá kröfu til nemenda að þeir búi yfir færni til að finna, meta og nota upplýsingar og heimildir á skilvirkan og ábyrgan hátt. Samkvæmt skilgreiningu American Library Association (ALA) frá árinu 2000, er sá sem býr yfir slíkri færni upplýsingalæs. Einnig er áhugavert að kynna sér Pragyfirlýsinguna frá 2003 um eflingu upplýsingalæsis í samfélaginu og Alexandríuyfirlýsinguna frá 2005 um upplýsingalæsi og símenntun.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vísar til upplýsingalæsis í viðmiðum sínum um æðri menntun og prófgráður frá 16. maí 2011, en þar kemur m.a. fram að nemendur sem ljúka bakkalárprófi frá háskóla viðurkenndum af ráðuneytinu samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006 geti beitt aðferðum starfsgreinar eða fræðigreinar. Í því felst að nemandi „ ... greini hvenær þörf er á upplýsingum og hafi færni til að finna þær ... geti nýtt sér viðurkennd gagnasöfn og upplýsingalindir á viðkomandi fræðasviði ... “

Meðal faglegra gilda bókasafnsins er þetta: "Bókasafnið styður akademísk heilindi og vinnur gegn ritstuldi með fræðslu og ráðgjöf". Í samræmi vð það og til að bæta akademísk vinnubrögð nemenda, býður bókasafnið reglulega uppá fræðslu sem opin er nemendum og kennurum í HR. Auk þess eru kennarar hvattir til að nýta sér þjónustu upplýsingafræðinga bókasafnsins og panta fræðslu fyrir nemendur sína. Best er að upplýsingafræðingur komi inní kennslustund í tengslum við verkefnavinnu svo hagnýtt gildi fræðslunnar sé augljóst og nemendum gefist kostur á að nýta hana sem best.