Skip to Main Content

Tölvunarfræði / Tölvunarstærðfræði: Almennt um heimildaleit

Heimildaleit

Til að leita skilvirkt að heimildum er mikilvægt að kunna leitartækni því verkefnavinna í háskóla krefst þess að nemendur geti leitað að og fundið áreiðanlegar heimildir til að byggja vinnu sína á. Þetta eru heimildir sem teljast fræðilegar enda séu þær byggðar á vísindalegum rannsóknum. 

 

Með því að nota gagnasöfn HR og tímaritaleitina  finna heimildir í tímaritsgreinum sem margar hverjar eru ritrýndar, en ritrýni telst merki um gæði á rannsóknum þar sem vísindafólk úr sömu fræðagrein yfirfara rannsóknarvinnuna og meta grein hæfa til birtingar eður eiÝmsar skýrslur opinberra stofnana og fyrirtækja geta einnig talist áreiðanlegar heimildir. 

Námskeið í upplýsingalæsi

Boolean

Hvernig er best að leita

Þegar leitað er að heimildum veltur allt á að nota vel valin leitarorð sem ná yfir það sem leitað er að. Þannig er mikilvægt að nota lykilhugtök sem koma fram í verkefnalýsingunni sem leitarorð. 

  

Dæmi um verkefnaspurningu: Hver er fylgni lystarstols og þunglyndis?  
 
Lykilhugtökin hér eru fylgni, lystarstol og þunglyndi.  

 

Einnig þarf að hugsa út fyrir kassann og finna samheiti, þrengri heiti og/eða víðari heiti, hvort sem er á íslensku eða öðrum tungumálum.  
 
Ef notað er dæmið hér að ofan um fylgni lystarstols og þunglyndis þá gæti verið hægt að nota orðin átröskun og depurð en einnig er mikilvægt að hugsa um tímabil (miðar verkefnið við að skoða ákveðið tímabil af rannsóknum, t.d. 2000-2020) og landssvæði (miðar verkefnið við að skoða ákveðin hluta heimsins (t.d. Norðurlönd eða Evrópu) eða einskorðast það við Ísland?  

  •  ... víðari heiti gæti verið ...
    o   lystarstol → átraskanir
    o   þunglyndi → geðraskanir

     
  •  ... samheiti / skyld heiti gæti verið ...
    o   fylgni → samband, samsvörun
    o   lystarstol → anorexía

     
  •  ... enskt heiti gæti verið ...
    o   fylgni → correlation
    o   þunglyndi → depression

Eftirfarandi vefir geta verið gagnlegir við að finna samheiti og skyld heiti leitarorða;

  • Thesaurus.com
  • Einnig bjóða gagnasöfnin upp á efnisorðalista (thesaurus) til að finna góð leitarorð

Oftast er ekki nóg að leita með einu stöku leitarorði, það skilar yfirleitt takmörkuðum niðurstöðum.  Þegar leitað er með fleiri en einu leitarorði eru notuð svokölluð Boolean-leitarorð AND, OR og NOT og þau orð eru alltaf skrifuð með stórum stöfum.

 

 

AND = til að finna tvö eða fleiri orð saman
o   children AND behavior
o   Iceland AND banks AND crisis

 

OR = til að finna annað hvort orðið
o   lystarstol OR anorexia
o   coronavirus OR Covid-19

 

NOT = útilokar orð sem ekki eiga að vera í niðurstöðunum
o   jaguar NOT car (þegar leitarð er að heimildum um kattardýrið jagúar)
o   fuji NOT film (þegar leitað er að heimildum um fjallið Fuji í Japan)

 

Flestar leitarvélar og gagnasöfn skilja bil á milli orða þannig að leita skuli að báðum leitarorðunum (eða öllum leitarorðunum, ef orðin eru fleiri en tvö), en það er þó alls ekki algilt.

Í Google og Google Scholar er notað + (plús merkið) í stað AND og  - (mínus merkið/bandstrikið) í stað NOT.

Í flestum gagnasöfnum og bókasafnskerfum býður ítarleitin (advanced search) upp á að velja Boolean orðin AND, OR og NOT í felligluggum og setja leitarorðin þannig saman.

Setjið gæsalappir „...“ utan um orð sem eiga að haldast saman í leitinni, t.d.

  • „behavioral disorders“
  • „business management“   
  • „body mass index“

Og svo má blanda gæsalöppum saman við Boolean orð og nota sviga til að koma í veg fyrir rugling, t.d.:

  • Iceland AND „financial crisis“
  • (children AND „body mass index“) NOT „United States“
  • (“heart attack” OR “myocardial infarction”) AND diabetes NOT cancer

Ef leitarorð hefur fleiri en eina mögulega endingu er hægt að setja stjörnu * fyrir aftan og þá skilar leitin öllum mögulegum endingum. Einnig er hægt að setja stjörnu inn í mitt orð þegar til eru tvær mismunandi stafsetningar á orðum. Stjarna getur þýtt enginn stafur, einn stafur eða margir stafir. 

  • educat*  skilar education, educate, educated, educating... 
  • behavio*r skilar behavior og behaviour

​Langvinsælasta leitarvélin í dag er Google.

Þegar leitað er á Google skilur leitarvélin bil á milli orða þannig að verið sé að biðja um vefsíður sem innihalda bæði leitarorðin (eða öll, ef slegin eru inn fleiri en tvö leitarorð) í sömu vefsíðunni.

En ef tryggja á að bæði eða öll leitarorðin komi fyrir á hverri vefsíðu í niðurstöðulistanum, verður að setja + (plús merkið) fyrir framan öll leitarorðin og alveg klesst upp við orðin, t.d.

  •  +children +behavior (leit að vefsíðum um hegðun barna)

Ef útiloka á leitarorð úr niðurstöðunum þá er notað – (mínus merkið / bandstrikið) og alveg klesst upp við orðin, t.d.

  • „financial crisis“ –Iceland (leit að vefsíðum um efnahagskreppur en ekki efnahagskreppuna á Íslandi)

Setjið alltaf gæsalappir utan um orð sem eiga að haldast saman í leit á Google, t.d.

  • „behavioral disorders“
  • „business management“
  • „body mass index“

Ef finna á fræðilegar heimildir á netinu er mælt með að nota Google Scholar sem finnur greinar í fræðilegum tímaritum ásamt öðru áreiðanlegu efni á netinu. Hægt er að stilla Google Scholar þannig að leitarvélin gefur linka í fullan texta tímaritsgreina í gagnasöfnum sem bókasafnið hefur aðgang að og birtist þá Til|Available@RU.is  hægra megin á skjánum.

Til að stilla Google Scholar sjá leiðbeiningar fyrir stillingar.

Vefsíður falla ekki allar undir þá skilgreiningu að vera áreiðanlegar heimildir. Vefsíður sem vistaðar eru hjá opinberum stofnunum ættu þó í flestum tilfellum að flokkast sem áreiðanlegar heimildir.

Neðangreind viðmið eru oft notuð til að meta áreiðanleika vefsíðna:

Traustur ábyrgðaraðili

  • Hver er höfundur efnis? Er hægt að hafa samband við hann - er t.d. gefið upp netfang höfundar?
  • Hefur höfundur sérþekkingu á því sviði sem fjallað er um -  er hann t.d. sérfræðingur hjá  stofnuninni sem vefsíðan er vistuð hjá?
  • Hefur höfundur skrifað meira um efnið? "Googlið" höfundinn, sláið nafni hans upp í bókasafnskerfum.
  • Athugið að gera mun á ritstjóra vefsíðu og höfundi efnis.
  • Hver gefur síðuna út, þ.e. hver hýsir síðuna? Er það áreiðanlegur aðili?
    Skoðið fyrsta hluta URLsins þ.e. það sem kemur strax á eftir http://www.xxx.xx Er það einstaklingur, háskóli, stofnun, fagfélag, fyrirtæki ... sem hýsir síðuna?
  • Skoðið einnig endingu slóðarinnar. Endar hún á ...
    .gov (governmental entity - stjórnsýslustofnun)
    .edu (educational institution - menntastofnun)
    .org (organisation – stofnun eða félagasamtök sem hefur engan fjárhagslegan ávinning af starfsemi sinni)
    .com (commercial entity – fyrirtæki og/eða þjónusta)
    Slóðir sem enda á .gov .edu og .org ættu að vera traustverðugar stofnanir, en .com slóðir eru í mörgum tilfellum vefir sem hafa það fyrst og fremst að markmiði að selja vörur og/eða þjónustu.

Óhlutdræg umfjöllun

  • Hver er tilgangur vefsíðunnar að selja, að fræða, tjá skoðun, birta staðreyndir, fréttir ...? 
  • Hve nákvæmar eru upplýsingarnar sem koma fram?
  • Er umfjöllunin einhliða eða er fjallað um efnið frá fleiri en einu sjónarhorni? Ber málfarið merki fordóma? Samrýmast upplýsingar á vefsíðunni öðrum heimildum um sama efni?

Nýjar upplýsingar

  • Hvenær var síðan unnin?
  • Hvenær var síðan uppfærð síðast?
  • Eru tenglar á síðunni virkir?
  • Vísa tenglarnir í "góðar/áreiðanlegar" vefsíður og bæta þeir einhverju við efni vefsíðunnar?

Bókasafn HR er áskrifandi að fjölda gagnasafna, ásamt því að veita aðgang að gjaldfrjálsum gagnasöfnum innlendum og erlendum. Yfirlit yfir gagnasöfnin er að finna á gagnasafnasíðu safnsins.

Helstu gagnasöfnin eru eftirfarandi:

  • Alfræðisafnið Britannica Online. – Upplagt til að slá upp skilgreiningu á hugtökum, atburði í mannkynssögunni eða þekktum einstaklingi.
  • Samsteypusafnið ProQuest. – Gagnasöfn á víðu fræðasviði sem bjóða aðgang að greinum (útdrætti og fullan texta) í ritrýndum sérfræðitímaritum og almennum tímaritum, greinar í dagblöðum og ýmsar fréttaveitur.

  • Sérfræðisöfn henta til að leita á einstökum fræðasviðum. – T.d. lögfræðisöfnin FonsJuris (íslenskt), Karnov (danskt) og Lovdata (norskt) og tölvunarfræðisafnið ACM Digital Library.

  • Gagnasöfn sem útgefendur sérfræðitímarita reka. - Wiley, SAGE Journals, Science Direct (Elsevier) og Springer.

  • Tilvísanasöfn, þ.e. söfn sem gefa upplýsingar um og útdrátt úr greinum í  sérfræðitímaritum (ekki boðið upp á fullan texta í gagnasafninu sjálfu). – T. d.   Web of Science (WoS),  sem er gagnasafn ISI (Institute of Scientific Information), hágæða-tímarit á ýmsum fræðasviðum. ATH að ef önnur gagnasöfn sem safnið hefur aðgang að, hafa að geyma fullan texta greina, gefur WoS tengingu í fullan texta í gegnum þau söfn.

  • Íslensk gagnasöfn t.d.:

    o   Timarit.is - íslensk tímarit frá upphafi útgáfu
    o   Opin vísindi - rafrænt varðveislusafn fyrir ritrýndar vísindagreinar, doktorsritgerðir og efni sem birtist í opnum aðgangi á vegum íslenskra háskóla
    o   ÍRIS - varðveislusafn Landspítala-Háskólasjúkrahúss - mestmegnis greinar og ritgerðir í heilbrigðisvísindum. ÍRIS tók við hlutverki Hirslu, varðveislusafns Landspítala frá árinu 2005.
    o   Rafhlaðan - efni sem eingöngu hefur verið gefið út á rafrænu formi
    o   Skemman – varðveislusafn lokaverkefna og lokaritgerða í íslenskum háskólum

Bókasafn HR notar bókasafnskerfið Gegnir, sem er sameiginlegt kerfi fyrir íslensk bókasöfn, og eru m.a. öll háskólasöfn og almenningsbókasöfn á Íslandi inni í kerfinu. Leitir.is er leitarvefur sem leitar samtímis í bókasafnskerfinu Gegnir og í þeim erlendu og innlendu gagnasöfnum sem HR býður aðgang að.

Bókasafn HR er með sína eigin leitarsíðu fyrir sinn safnkost, hr.leitir.is. Til þess að sjá hvaða efni er til á öðrum íslenskum bókasöfnum er hægt að velja að "víkka leitina".

Notendur geta skráð sig inn á Leitir með rafrænum skilríkjum og geta þá endurnýjað útlánin sín, tekið frá bækur og sótt um millisafnalán.  

Sjá frekari leiðbeiningar inn á hjálpinni á Leitum. 

Tímaritalisti bókasafnsins gefur yfirlit yfir öll tímarit safnsins. Tímaritin eru aðgengileg í gegnum hin ýmsu gagnasöfn, sum aðgengileg í fleiri en einu gagnasafni.

Ef finna á ákveðið tímarit í tímaritalista er titill þess sleginn inn í leitargluggann og hakað við "Byrjar á". Hægt er að velja að fá bara niðurstöður með ritrýndum tímaritum.

Einnig má fletta í gegnum tímaritalistann með því að slá inn orð sem titill tímaritsins á að innihalda t.d. accounting eða jafnvel slá inn stofn orðs ásamt stjörnu account* og haka við "Inniheldur", sem skilar þá niðurstöðum fyrir allar endingar orðsins.

Í niðurstöðum tímaritsleitarinnar er gefin krækja í tímaritið sem hjá einu eða mögulega fleiri gagnasöfnum, ásamt upplýsingum um aðgengi að tímaritinu: Þ.e. tímabil áskriftar (hve langt aftur í tímann áskriftin nær), hvort birtingartöf sé á tímaritinu (oft er ekki aðgangur að nýjustu tölublöðunum) og hvort það sé ritrýnt.

Til að finna áhrifamikil tímarit á ákveðnu fagsviði má slá titli tímaritsins upp á Web of Science Master Journal List (MJL), en þar má finna öll svokölluð ISI tímarit. ISI tímarit eru þau tímarit sem komast á lista Institute of Scientific Information, en sá listi er uppfærður árlega.

Áhrifastuðull (e. impact factor) er mælikvarði sem endurspeglar meðalfjölda tilvitnana í greinar sem gefnar hafa verið út í viðk. tímariti tvö undangengin ár. Áhrifastuðlar tímarita geta nýst til að finna áhrifamikil tímarit innan fagsviða. Journal Citation Report (JCR) inniheldur upplýsingar um áhrifastuðla vísindatímarita, þ.e. hve áhrifamikið hvert tímarit á ISI listanum er innan síns fagsviðs.