Skip to Main Content

Blogg

Chat GPT og upplýsingalæsið

eftir / by Irma Hrönn Martinsdóttir (í leyfi) dags. / date 2023-03-03T15:09:00+00:00 | 0 Athugasemdir / Comment

Tilkoma spjallmennisins ChatGPT hefur ekki farið fram hjá okkur hér á bókasafninu og það er óvenju gaman að leika sér og prófa sig áfram með hvað ChatGPT getur gert. Þrátt fyrir að vera mjög skemmtilegt og gagnlegt þá hefur ChatGPT, að svo stöddu, sannarlega sínar takmarkanir og ekki bara á sviði textílverka eins og heklunnendur hafa komist að með því að fá það til að hanna fyrir sig hekluppskriftir.

Það sem við viljum gjarnan að nemendur átti sig á er að spjallmennið gerir okkur svolítið erfitt fyrir þegar kemur að því að meta gæði þeirra upplýsinga sem það gefur okkur. Spjallmennið vinnur úr gígantísku magni af upplýsingum sem því hefur verið gefið og spýtir svo út því sem er tölfræðilega líklegast til þess að eiga við hverju sinni. Þess vegna er ekki alltaf hægt að ábyrgjast gæði upplýsinganna sem það gefur. Þá er gott að grípa í tól og tæki upplýsingalæsis sem gefa okkur hugmyndir um hvað þarf að hafa í huga þegar áreiðanleiki upplýsinga er metin (tekið af leiðarvísi bókasafnsins): 

  • Hver er höfundur efnis? Er hægt að hafa samband við hann - er t.d. gefið upp netfang höfundar?

  • Hefur höfundur sérþekkingu á því sviði sem fjallað er um -  er hann t.d. sérfræðingur hjá  stofnuninni sem vefsíðan er vistuð hjá?

  • Hefur höfundur skrifað meira um efnið? "Googlið" höfundinn, sláið nafni hans upp í bókasafnskerfum.

  • Hver gefur síðuna út, þ.e. hver hýsir síðuna? Er það áreiðanlegur aðili?

  • Hver er tilgangur vefsíðunnar? Að selja, að fræða, tjá skoðun, birta staðreyndir, fréttir ...? 

  • Hve nákvæmar eru upplýsingarnar sem koma fram?

  • Er umfjöllunin einhliða eða er fjallað um efnið frá fleiri en einu sjónarhorni? Ber málfarið merki fordóma? Samrýmast upplýsingar á vefsíðunni öðrum heimildum um sama efni?

  • Hvenær var síðan unnin?

  • Hvenær var síðan uppfærð síðast?

  • Eru tenglar á síðunni virkir?

  • Vísa tenglarnir í "góðar/áreiðanlegar" vefsíður og bæta þeir einhverju við efni vefsíðunnar?

Það er engin leið fyrir okkur að vita nákvæmlega hvaða upplýsingar ChatGPT notar til þess að búa til svarið og því erfitt að grandskoða og meta upplýsingarnar. 
Jafnvel þegar spjallmennið kemur með heimildir þá hafa þær ekkert að gera með svarið sjálft. Oft eru þessar heimildir til og jafnvel áreiðanlegar en stundum eru þær tilbúningur og hvergi finnanlegar þrátt fyrir að spjallmennið gefi heimildirnar upp samkvæmt hinum ýmsu heimildaskráningarstöðlum og í formi ritrýndra tímaritsgreina. Þetta getur því allt litið mjög vel út við fyrstu sýn, flottur texti og heimildirnar virðast vera frá viðurkenndum útgefendum eins og Springer en það er bara hálfur sannleikur. Hér er mikilvægt að átta sig á að svörin eru ekki byggð á þeim heimildum sem spjallmennið gefur upp (skjáskot úr spjalli sem ég átti við ChatGPT).

 

Kannski þarf að líta á ChatGPT upplýsingar sem eins konar Wikipediu síðu? Það getur verið mjög gagnlegt til þess að kynna sér hluti stuttlega en er ekki (enn) gagnlegt við skrif á verkefnum þar sem vísa þarf í áreiðanlegar heimildir. Þar sem við getum ekki staðfest eða skoðað þær upplýsingar sem ChatGPT er að vinna með þá þurfum við alltaf að gera okkar eigin upplýsingaleit. Nauðsynlegt er að vera heiðarleg og taka fram ef spjallmennið er notað í verkefnum. 

Við, starfskonur bókasafnsins erum enn að átta okkur á og skilja betur á hvern hátt við getum nýtt okkur ChatGPT á ábyrgan hátt og fylgjumst spenntar með framvindunni.

Til þess að enda á hressu nótunum bað ég ChatGPT um brandara (bað reyndar um nokkra en ég legg ekki meira á ykkur):
 

The gist of this blog is quite plainly put in this flowchart from Aleksandr Tiulkanov

 

 


 Bæta við athugasemd / Add comment

0 Athugasemdir / Comment.

  Gerast áskrifandi / Subscribe



Fáðu sendar tilkynningar í tölvupósti / Get notifications via e-mail


  Færslusafn / Archive



  Fræðasvið / Subjects



Lögfræði / Law
  Til baka / Return
This post is closed for further discussion.

title
Loading...