Skip to Main Content

Heimildaleit: Upplýsingalæsi

Upplýsingalæsi

Vinnubrögð í háskólanámi gera þá kröfu til nemenda að þeir búi yfir færni til að finna, meta og nota upplýsingar og heimildir á skilvirkan og ábyrgan hátt. Samkvæmt skilgreiningu amerísku bókavarðasamtakanna frá árinu 2000 er sá sem býr yfir slíkri færni upplýsingalæs. Einnig er áhugavert að kynna sér Pragyfirlýsinguna frá 2003 um eflingu upplýsingalæsis í samfélaginu og Alexandríuyfirlýsinguna frá 2005 um upplýsingalæsi og símenntun.

Í gildandi viðmiðum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um æðri menntun og prófgráður frá 16. maí 2011 kemur m.a. fram að nemendur sem ljúka bakkalárprófi frá háskóla viðurkenndum af ráðuneytinu samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006 skuli búa yfir eftirfarandi þekkingu og hæfni:

  • þekki undirstöðuatriði leitar- og upplýsingatækni
  • greini hvenær þörf er á upplýsingum og hafi færni til að finna þær, meta áreiðanleika þeirra og nýta á viðeigandi hátt
  • geti nýtt sér viðurkennd gagnasöfn og upplýsingalindir á viðkomandi fræðasviði 

Kennslustefna HR kveður á um að nemendur nái „leikni í að beita aðferðum fagsviðs síns og hæfni til að nýta þekkingu í námi og starfi“.  Einnig segir þar að „nemendur skuli öðlast traustan fræðilegan bakgrunn“ og „hljóta þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum“. 

Til að þessi markmið náist er nauðsynlegt að nemendur þjálfist í að afla sér heimilda, læri að nota þær og vitna til þeirra í texta, þ.e. geti leitað og fundið áreiðanlegar heimildir hvort heldur sem er í gagnasöfnum eða á netinu, nýtt sér heimildirnar og skráð þær skv. viðurkenndum heimildaskráningarstöðlum.

Í samræmi við reglur HR um verkefnavinnu, hefur skólinn tekið í notkun ritstuldarvörnina Turnitin. Ritstuldarvörnina er hægt að tengja við kennslukerfið Canvas og kanna hvort ritstuld sé að finna í verkefnum nemenda.
Einnig er mælt með að nemendur kynni sér heimildaskráningarforritið Zotero.